Hönnunarfyrirtækið FÓLK Reykjavík hefur ráðið Mette Mosegaard sem yfirmann vöruþróunar og hönnunar á nýrri skrifstofu fyrirtækisins í Kaupmannahöfn. Mette er iðnhönnuður með um tveggja áratuga reynslu af vöruþróun fyrir smásölumarkaði. Hún starfaði síðastliðin 7 ár hjá einu fremsta hönnunarfyrirtæki Dana, Fritz Hansen, þar sem hún átti stóran þátt í uppbyggingu lífstílshluta fyrirtækisins og vann náið með mörgum þekktustu hönnuðum heims. Áður hafði hún starfað við vöruþróun hjá Rosendahl um nokkra ára skeið og á sama sviði hjá Sørensen Leather, Dansani, Pelikan Copenhagen ofl.
FÓLK hyggur á vöxt á erlendum mörkuðum á árinu og undirbýr nú til dæmis þátttöku í sýningunni Stockholm Furniture Fair í febrúar þar sem sýndar verða nýjar vörur eftir íslenska hönnuði. FÓLK Reykjavík auglýsir einnig þessa dagana eftir yfirmanni sölumála fyrirtækisins sem verður staðsettur í Kaupmannahöfn til að styðja sókn fyrirtækisins.
„Það er mikil fengur fyrir FÓLK að fá reynslumikinn aðila eins og Mette til starfa. Hún hefur mikla reynslu af vöruþróun og uppbyggingu auk reynslu af samstarfi við heimsþekkta hönnuði og stóra framleiðendur sem mun án efa nýtast vel. Það er afar ánægjulegt að finna þegar öflugt fólk með mikla alþjóðlega reynslu tengir sterkt við sýn FÓLKs um að gera hönnun að mikilvægum drifkrafti grænu iðnbyltingarinnar,“ segir Ragna Sara Jónsdóttir stofnandi FÓLK Reykjavík.